Nýtt tímabil – ný tækifæri? 🔥

Kæru félagar, nú er komið að því að eftir viku hefst 16. tímabil í sögu Bjólfs eða BJÓLFUR XVI, og fyrsta mótið fer fram föstudaginn 5. september hjá Iðnaðarmanninum og auðvitað byrjum við tímabilið hjá Gestgjafanum…það var reyndar rafmót 2020 þegar að Covid var í gangi og síðan XIII (2022) er í eina skiptið sem við byrjuðum ekki hjá Iðnaðarmanninum þegar hann þurfi að afturkalla heimboðið á fyrsta kvöld og Mikkalingurinn hljóp undir bagga og er því eini annar sem hefur haldið fyrsta mót.
Fyrir tímabilið er tilvalið að dusta rykið af spilastokknum, skerpa á „pókerfésinu“ og koma rifja upp hvernig leikurinn er spilaður og finna pókerdótið (eða kaupa sér nýtt í Bjólfsbúðinni). Jafnvel gott að rifja upp siðareglurnar (þ.s. þær eru vel faldar á síðunni…en bara því það er svo margt annað skemmtilegt að skoða 😉 …og ef menn þurfa hjálp við að rifja þær upp er líka gott að skella Ekki skvetta pottnum á fóninn…sem og öðrum Bjólfsslögurum til að koma sér í gírinn.
Við eigum að baki 15 mögnuð ár með óteljandi spilakvöldum, ógleymanlegum sigrum, ófáum bjórum og allskonar óvæntum fleygum setningum. Það er þó alltaf sama sagan: það verður enginn meistari nema að mæta. Bótarinn tókst reyndar að komast upp með undantekninguna einu sinni, en sagan sýnir að mætingin er grunnurinn að því að lifa af heilt tímabil og landa titlinum. Í gegnum þessi ár hafa aðeins fjórir orðið Bjólfsmeistarar, en nú er spurningin hver grípur tækifærið í þetta skiptið. Er það Timbrið sem loksins nær að leggja smiðshöndina á að landa stóru verðlaununum? Tekur Iðnaðarmaðurinn sér frí frá verkfærunum og sýnir snilldartakta við borðið? Sprengir Massinn pottana með sínum stíl? Eða leiðir Kapteinninn skipið til sigurs? Og hver veit nema Nágranninn stígi loksins út úr búbblunni og steli senunni. Mætingin á fyrsta móti ársins er lykillinn…allar líkur að því að einhver af þeim sem mætir verði næsti meistari!
En titillinn er ekki það eina sem skiptir máli. Hvert spilakvöld er tækifæri til að hitta félagana, spjalla, henda í góðar sögur og fleygar setningar og njóta þess að eiga frábært kvöld saman. Það er einmitt þetta sem gerir Bjólfið að því sem hann er – félagsskapurinn, stemningin og gamanið sem fylgir hverju kvöldi.
Spilin bíða. Bjórinn bíður. Félagsskapurinn bíður. Nú hefst Bjólfur XVI – og spurningin er bara: hver verður meistari árið 2026? 🍀
❤️😘